Hæ! Ég hafði mig loks í það að taka saman mjög algengar spurningar og setja þær saman í eina stóra langloku fyrir ykkur. Mér berast daglega spurningar um hvar ég lærði, hvenær og hvar ég vinn. Hvenær og hvernig ég hafi áttað mig á því að ég vildi læra snyrtifræði, hvort námið hafi verið erfitt o.s.frv. Það sama með förðunarfræðina.

Byrjum á smá sögustund – Ég hef haft bullandi áhuga á lífvísindum, náttúrufræði og læknisfræðilegum hlutum síðan ég var krakki. Mér finnst líffræði meira en áhugaverð, ég elska hana ásamt lífefnafræði og líffærafræði. Því taldi ég eina starfið sem myndi henta mér vera læknisfræði eða eitthvað í heilbrigðisgeiranum en hafði í raun aldrei áhuga á því að verða læknir, það tók mig töluverðan tíma að átta mig á því að svo var ekki.

Ég útskrifaðist úr framhaldskóla jólin 2010, 9 dögum fyrir 18 ára afmælið mitt. Ég tók framhaldsskólann því í hraðari kanntinum og fór út í háskólalífið án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætti að gera. Ég setti alla pressu á að klára háskólanám enda var enginn iðnmenntaður í kringum mig og mamma mikil menntakona. Ég lét vaða í hjúkrunarfræðina án þess að hafa neinn sérstakan áhuga á starfinu sjálfu sem endaði auðvitað á því að ég hætti á endanum þegar ég loks áttaði mig á því.

Ég hafði verið að brasa við förðun og dúlla mér í því síðan ég var 11-12 ára þegar ég kynnist Sollu stjúpu, förðunarmeistara með meiru. Ég vann fyrir hana í förðunarverslun flest sumur þegar ég var á gelgjunni og fylgdist náið með hennar vinnu. Þetta var mér því ekki ókunnugt. Það má þó segja að hún hafi alltaf ýtt mér lengra og lengra út í þetta frá fermingaraldri, ég fékk förðunarvörur og skvísudót í jólagjöf og þegar ég var 15 ára fékk ég mína fyrstu Airbrush vél. Átti burstasett, augnskuggapalettur, öll heimsins pigment, glimmer og eyelinera þegar ég var í 10. bekk. Það var alls ekki normið þá, tökum smá flashback á 2007 förðunartísku íslands: meik á varir, svartur blýantur í brúnir, og sólarpúður dauðans – skinkan. Í janúar 2012 tók ég skyndiákvörðun og fór í förðunarnám í Airbrush & Makeup School. Það hafði aldrei verið planið að læra förðun eða starfa við það. Hinsvegar átti námið vel við mig, listrænu genin hefðu verið í dvala í þau 19 ár sem ég hafði lifað blossuðu upp og tóku völd. Eftir námið fór ég strax út í það að taka viðskiptavini og á tímabili var ég mun betri í að vinna á öðrum en ég var á sjálfri mér (enda er það það sem förðunarfræðin gengur út á). Nú hef ég verið starfandi förðunarfræðingur í 5 ár með góða reynslu og sérhæfi mig í beauty/glam förðunum.

Fyrir mér er förðunarnám góður grunnur en ef þú ætlar að verða góður förðunarfræðingur þarftu að æfa þig, finna þinn stíl og þróa hann. Förðunarfræðinám er oftar en ekki mjög innan sérstaks kassa með boð og bönn sem gott er að taka mið af en útfæra það á þinn eigin hátt.  Ef að reglurnar henta þér ekki, brjóttu þær þá. Förðun er tjáning og listform.

Í janúar 2014 var ég á miklum krossgötum, ég vildi vinna við förðun og innan þess geira án þess að þurfa að vinna í verslun eða í leikhúsi/sjónvarpi. Móðir mín kom með þá hugmynd að ég skyldi læra snyrtifræði, ég man hvað ég var ógeðslega hneyksluð á henni því að förðun og snyrtifræði eru svo ótrúlega ólík starfsvið. Hún sá þetta samt fyrir sér og sannfærði mig að kíkja allavega á skólann. Ég ákvað að láta vaða og byrjaði í mars 2014 í Snyrti-Akademíunni. Námið var ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt, mun meira bóklegt og meiri fræði en mig hafði grunað. Anatómían, lífeðlisfræðin og sjúkdómafræðin var right up my alley og átti ég mjög auðvelt með bóklega hlutann.

Í mars 2015 útskrifaðist ég og dúxaði námið. Tók námssamninginn minn á Snyrtistofunnu Dimmalimm, þar sem ég starfa enn. Í maí 2016 tók ég sveinsprófin og stóðst þau með stæl, var svo verðlaunuð á Nýsveinahátíð IMFR 4. febrúar 2017 með bronsverðlaunum fyrir árangur á sveinsprófi.


Og fyrir þá sem að nenntu ekki að lesa langlokuna þá er þetta hér í stuttu máli:

Hvar lærðiru förðun? Airbursh & Makeup School vorið 2012

Varstu ekkert stressuð að byrja að taka viðskiptavini? Jú auðvitað var smá stress í byrjun en það er best að byrja strax, henda sér út í djúpu laugina.

Hvað fannst þér skemmtilegast við förðunarnámið? Ég byrjaði ekki að tengja við námið fyrr en í seinnihlutanum, þá fórum við í special effects, body painting og airbrush. Þegar þú getur blandað fullkomnlega líkamsmálingu þá geturu blandað augnskugga. Þetta dýpkaði skilninginn minn á litafræði og hef ég haft mottóið “blend until you bleed” síðan þá. Airbrush finnst mér líka ótrúlega skemmtilegt í fantasíufarðanir en ég gerði mikið af fantasíu fyrstu árin mín.

Hvar er hægt að bóka förðun? Á facebook-like síðunni minni,

Hvar lærðiru snyrtifræði? Snyrtiskólanum í kópavogi (Snyrti Akademían) 2014-2015.

Ertu full lærð? Já, lauk sveinsprófi í maí 2016.

Hvað kostaði námið? Mig minnir að önnin hafi verið 600 þús og þetta voru þár annir

Er gaman að vera snyrtifræðingur? Já, mér finnst virkilega gaman í vinnuni.

Hvað er skemmtilegast? Það er auðvitað persónubundið en mér finnst húðmeðferðir og allt sem viðkemur því lang áhugaverðast, og svo auðvitað augabrúnir.

Var snyrtifræðinámið erfitt? Já, á köflum fannst mér það mjög krefjandi. Kvíðinn minn dróg virkilega úr mér í verklega þættinum. Ég set svo gríðarlega pressu á sjálfa mig að gera allt 100% að ég átti það til að klúðra með því að falla á tíma.

Voru sveinsprófin erfið? Þetta er jú próf og þau eru alltaf stressandi fyrir mér en þau eru sett upp eins og vinnudagur. Þú ert að gera meðferðir sem að þú ert vön/vanur, eini munurinn er að það eru dómarar að fylgjast með. Ég var viðbjóðslega stressuð fyrir prófin sjálf en var furðu róleg á prófdegi.

Hvað kom þér helst á óvart við snyrtifræði námið? Ég var alls ekki undirbúin í fótsnyrtingarnar, ég viðurkenni það alveg en hinsvegar þá vandist það fljótt. Núna finnst mér þær ekkert mál og frekar skemmtilegar. Einnig grunaði mig ekki að ég myndi falla svona fyrir húðumhirðu, mér finnst fátt áhugaverðara í dag.

Ertu með eitthver ráð fyrir þau sem vilja læra snyrtifræði? Vertu tímanlega í því að finna þér snyrtistofu til að taka námssamning,  klára samninginn fljótlega eftir skólann og vera ekki að draga það. Reynið að finna ykkur stofu með áhugasömum og góðum meistara, það skiptir öllu að vera með góðan kennara. Klárið sveinsprófin, alls ekki gefast upp. Námið er ekki til neins nema klára sveininn og fá réttindin.

Á hvaða stofu ertu að vinna? Er á Snyrtistofunni Dimmalimm, í Árbænum.

Hvar er hægt að bóka hjá þér í snyrtimeðferðir? Það er hægt að skoða meðferðirnar á dimmlimm.is en það er einungis hægt að bóka í s. 557-5432.

Hafðiru hugsað þér að læra eitthvað meira eða vinna við eitthvað annað? Ég hef rosalega mikinn áhuga á efnafræði og sérstaklega þá efnafræði og virkni snyrtivara. Ég gæti alveg hugsað mér að vinna við vöruþróun eða framleiðslu snyrtivara. Einnig heillar lyfjafræðin en ég er alveg þokkalega góð í bili.

Bæði fögin eru í sífeldri þróun með nýjum “trendum” og nýrri tækni, ég reyni því alltaf að fara á námskeið og kynningar. Bæði til að læra eitthvað nýtt og líka til þess að fá innblástur. Árið 2015 fór ég t.d. til New York á Master Class hjá Mario Dedivanovic (makeupbymario) sem að var dream come true fyrir mig, svo kom Ariel Tejada (makeupbyariel) til íslands í fyrra á vegum Reykjavík Makeup School með master class sem var ótrúlega áhugavert.

Mario.

 

Ariel.

Ég held að ég hafi farið yfir allt sem að ég fæ flestar spurningar um, mig langaði bara ótrúlega að hafa þetta hér á blogginu þar sem að það er aðgengilegt og vonandi getur það aðstoðað einhverja. Mér finnst algengur miskilningur að snyrtifræðingar séu eingöngu að lita og plokka allan daginn, það er alls ekki raunin. Námið sjálft snýst t.d. lang minnst um það að mínu mati, við lærum um húðina, vöðva, bein, húðsjúkdóma, fótamein, allt um hreinlæti og svo margt fleira. Minn vinnudagur er samt sem áður mikið augabrúnir. Ég fékk góða þjálfun, er mjög smámunasöm og vandvirk og því mikið að gera í því. Mér finnst það ótrúlega gaman en fjölbreytnin í vinnunni er líka æðisleg, mismunandi meðferðir yfir daginn. Það að geta tvinnað saman förðunarfræðina og snyrtifræðina í eitt og unnið við það sem ég elska á hverjum degi eru algjör forréttindi.

Finndu þér eitthvað sem þú elskar að gera og búðu til vinnu úr því.

Share: