Færslan er ekki kostuð.

Ég hef áður fjallað um vöru úr Hydramemory – Hydramask en hann er einn af mínum uppáhalds rakamöskum. Þá kemur ekki á óvart að rakagelkremið í línunni er hátt á vinsældarlistanum mínum og er partur af daglegri húðumhirðu.

Hydramemory Cream Gel er létt rakagefandi gel-krem formúla (mætti kalla þetta hybrid af kremi og geli) sem að stíflar ekki feitar húðgerðir heldur bara fyllir húðina af raka og næringu. Mín húð er (eins og ég hef oft sagt áður) blönduð (feit á t-svæði, þurr í kinnum) og á það til að fá bólur. Ég get ekki lýst því fyrir ykkur hversu góð tilfinning það er að bera á sig þetta krem, lyktin af því ótrulega fersk og “hrein” en mér finnst lykt vera stór partur og vega mikið í því hvort ég noti vöruna áfram eða ekki. Ef ég gleymi að bera á mig rakakrem á morgnana þá er ég alveg ómöguleg allan daginn. Kæró hefur heldur ekki snert önnur krem síðan ég kom með þetta heim svo unaðslegt er það og auðvitað unisex en hentar karlmönnum vel vegna þess að það er létt, ekki of kvenleg lykt og stíflar ekki húðholur/eykur ekki myndun fílapensla. Ég reyni að prófa öll krem og maska á honum líka til þess að fá hans álit (ef þau henta húðgerðinni), honum til mikillar gleði.

Kremið inniheldur hýalúrónsýru sem að er kröftugur rakagjafi húðar og eitt af þeim efnum sem finnast í leðurhúð (undirlagi húðar/lifandi húðvef). Einnig er í því moringa olía sem er stútfull af næringarefnum og andoxunarefnum sem endurnæra húðina, halda henni unglegri og frísklegri. Það er svo létt en kraftmikið og drekkur húðin mín það í sig á 0.1 sek og finn ég strax mun.

Photo Aug 22, 4 41 32 PM

Algengur miskilningur er að olíumikil húð þurfi ekki raka en oftast er það nú ekki raunin, öll húð þarf á raka að halda. Fituframleiðsla og rakamagn helst í hendur en olíumeiri húðgerðir eiga það til að verða yfirborðs þurrar vegna innihaldsefna í hreinsivörum sem eru hannaðar til þess að draga úr fitumyndun/sótthreinsa bólótta húð. Oftar en ekki innihalda slíkar vörur mikið alkóhól sem að eyðir upp náttúrulegum húðraka og skilur húðina eftir stífa og ómögulega.

undirskrift

Share: