Ég er með blandaða húð sem er acne-prone, eða húð sem á auðvelt með að fá bólur og hef fengið fullorðins acne. T-svæðið mitt og þá sérstaklega nefið er með opna fílapensla (blackheads) og á höku er ég með lokaða fílapensla og fæ stundum bólur á það svæði. Í dag fæ ég samt sjaldnar bólur en áður og eru eflaust nokkrar ástæður fyrir því en ég vil meina að ein af þeim ástæðum er ást mín á sýrum síðustu 4 árin. Nei, það er ekki eins og þú ert að hugsa. Flestir kannast við AHA sýrur en α-hydroxy acids eða ávaxtasýrur hafa verið partur af húðumhirðu mannkynsins í þúsundir ára og leynast í mörgum húðvörum án þess að þú kannski áttir þig á því. Þær eru taldar frábærar til að gefa húðinni sléttari áferð, vinna á örum, litablettum, acne, fínum línum, hrukkum, bæta rakastig húðarinnar og yfir allt betrumbæta hana. Það fer allt eftir því hvaða styrkleiki er notaður og hvaða sýrur eru notaðar.

Eins og nafnið á færslunni gefur til kynna þá er í vörunni sem um ræðir í þetta skipti 2% BHA, eða Salicylic sýra (β-hydroxy sýra). Efnafræðilega séð eru α- og β-hydroxy sýrur ekki svo ólíkar en munurinn liggur í staðsetningu sýruhópsins á kolefnakeðjunni.

Ég hef verið að nota 2% BHA vökvann frá Paula‘s Choice í nokkur ár til þess að viðhalda húðflögnun og halda fílapenslum óhreinindum í skefjum á milli þess sem ég fer í kraftmeiri stofumeðferðir eða nota sterkari AHA heimavörur. Vökvann nota ég alltaf á kvöldin eftir hreinsun og set ég bara nokkra dropa í bómullarskífu og dreg hana yfir andlitið, mér finnst svo best að leyfa húðinni aðeins að þorna áður en ég ber á mig serum og næturkrem.

 

β-hydroxy sýrur hafa þann eiginleika að vera fituleysanlegar og eiga þær því auðveldara með að komast ofan í húðholur þar sem þær valda húðflögnun og losa um stíflur ásamt því að valda húðflögnun á yfirborði húðarinnar. Salicylic sýra hefur ekki bara húðflagnandi eiginleika heldur er hún einnig bólgueyðandi (e. anti-inflammatory) af því að hún er náskyld lyfinu Asperin og hefur því svipaða eiginleika. Hægt er að vinna sýruna úr plöntum eins og t.d. berki  en það er einnig hægt að framleiða hana  ónáttúrulega á tilraunastofum og er það algengt í dag. Samkvæmt FDA (Food & drug administration) í Bandaríkjunum er Salicylic sýra flokkuð sem OTC eða „over the counter“ lyf við acne sem sýnir okkur það að innihaldsefnið er viðurkennt fyrir virkni sína.

Þetta er ástæðan fyrir því að Salicylic sýra er vinsæl í húðvörum sem vinna á lokuðum og opnum fílapenslum, ance, fínum línum og vörum sem að bæta áferð húðarinnar. Sýran er oftast nær í almennum húðvörum í 0.5-2% en oft er hún notuð með öðrum sýrum t.d. glycol sýru í sterkari meðferðum sem framkvæmdar eru af snyrtifræðingum eða læknum og hjúkrunarfræðingum. Ég mæli alltaf með því að ráðfæra sig við snyrtifræðing eða lækni og fá persónulegar ráðleggingar um hvað hentar hverjum og einum.

Færslan er ekki kostuð. Varan fæst hér.

 

Share: