Vöruna keypti ég sjálf og er færslan ekki kostuð. 

Ég hef átt þónokkra NYX primera en enginn af þeim hefur svipaða formúlu og þessi. NYX er með þónokkuð af silicone based primerum sem hafa enga virkni fyrir húðina og vinna í rauninni bara sem grunnur. En núna mér til mikillar gleði hafa þeir verið að bæta virkum efnum í þá og með því auka gæðin á vörunni til muna að mínu mati. Núna þar sem ég er á öðru glasi af þessum primer ákvað ég að segja ykkur aðeins frá honum í aðeins fleiri orðum en ég ætlaði mér, en vonandi njótiði góðs af!

Þessi primer greip athygli mína strax útfrá umbúðunum og nafninu, en dewy fíkillinn ég gat ekki beðið lengi eftir því að eignast hann. Halló, hann er með „gullflögum“ og lofar glowy húð?! Í dag gæti ég ekki án hans verið og er ég loksins búin að finna primer sem á sér stað í top 10 af mínum uppáhalds förðunarvörum.

Mér er ekki alveg sama hvað ég set á húðina mína, og þó að silicon based primerar séu ekki stíflandi og eru ekki að fara að skaða húðina þá eru þeir ekki að gera neitt meira fyrir hana. Með því að bæta og breyta innihaldsefnum í grunninum þá erum við að fá mun betri vöru með þá smávegis virkni. Til þess að velja primer sem hentar þinni húðgerð er gott að líta á innihaldsefni hans því að sum efni henta einni húðgerð, en alls ekki annari. Til dæmis olíur og feit húð, og þurr húð og efni sem draga úr fituframleiðslu.

HONEY DEW ME UP  inniheldur meðal annars:

Glycerin- Þekktur rakabindir, en er líka mikið notað sem grunnur í allskonar snyrtivörur. Glycerin er seigfljótandi og hálfklístrað sem gefur vörunni slíka áferð, og húðin verður silkimjúk og farðinn endingarbetri og fallegri.

Hyaluronic Acid – Mikið er af hýalúron sýru í húðinni en hún er framleidd af trefjakímfrumum, sem framleiða einnig kollagen og elastín. Með aldrinum hægist á framleiðslu hennar og er hún því mikilvægt innihalds efni í snyrtivörum sem vinna gegn öldrun húðar. Einnig er hún kröftugur rakagjafi með því að draga til sin mikinn raka og þannig helst húðin rakamikil og útþanin.

Honey extract – Hunang er náttúrulega sótthreinsandi og vinnur gegn öldrun húðar.

Collagen extract – Eins og margir vita þá er kollagen mikilvægt vegna þess að það hefur áhrif á teygjanleika húðar og þegar kollagen þræðir húðar minnka veldur það því að við fáum hrukkur.

Allantonin – Hefur róandi og sefandi áhrif á húð.

Þessi primer er því fullkominn fyrir eldri húð og húð sem sýnir fyrstu einkenni öldrunar, eða um 25+. Hann er samt sem áður ekkert verri fyrir örlítið yngri húð þar sem hann er ekki örvandi og gefur húðinni fyrst og fremst góðan raka og veitir ljóma. Sem förðunarvara er primerinn ekki að bjóða upp á eins mikla virkni og nokkurntíman dagkrem/serum og kemur ekki í stað þeirra, en sem grunnur undir farða er hann frábær og er virkni hans auka plús.

Ég set hann alltaf á eftir dagkreminu mínu, leyfi honum að þorna í nokkrar mín og set svo á mig farða. Fyrir mig dregur hann aðeins úr roðanum í húðinni, húðin verður mjúk og jöfn ásamt því að fá fallegan gljáa. Þar sem ég er með blandaða húð sem á það til að fá bólur er hann góður því að hann stíflar ekki húðina, og rakinn er góður fyrir yfirborðsþurrk og þurrari húðsvæði.

undirskrift

Share: