Færslan er ekki kostuð.

Ég elska að prófa nýja maska, það er á hreinu. Ég keypti mér þennan maska í Hagkaup fyrr í sumar af einskærri forvitini en ég meina: “10 minute mask to rescue problem skin” ?! Það varð ég að sannreyna.

Svona áður en við förum lengra þá skulum við setja okkur raunhæfar væntingar, það er enginn maski að fara að gjörbreyta húðinni þinni á 10 mín. Hinsvegar gefur þessi maski kröftuga virkni á þessum 10 mínútum og bætir jafnvægi húðarinnar.

Framarlega í innihaldslistanum má finna Zink Oxíð sem að flestir ættu að kannast við t.d. í bossakremum fyrir smábörn en það dregur úr roða og bólgum í húð ásamt því að draga í sig olíur á yfirborði húðar. Kamfóran hefur einnig róandi áhrif, dregur úr óþægindum í húð og er bakteríudrepandi. Einnig er í honum Salisýlsýra og brennisteinn sem að auka húðflögnun.

Glöggir lesendur kannast mögulega við sum innihaldsefnin en þau eru svipuð og í Drying Lotion, staðbundinni bólumeðferð sem slegið hefur í gegn.

Það sem mér líkað helst við þennan maska er að hann róar húðina niður og vinnur á vandamálunum án þess að hafa ertandi áhrif. Það tók mig nokkur skipti að venjast áferðinni á honum en þetta er svipað og að bera bossakrem framan í sig. Ég hef verið að prófa mig áfram með að setja hann á allt andlitið og svo bara á svæði þar sem ég hef verið að fá bólur, bæði reyndist mér vel. Hann hreinsar vel án þess að strípa húðina alveg, hún verður mjúk og hrein.

Best finnst mér að nota hann beint á bólurnar, eins og staðbundna meðferð, og leyfa honum að liggja á örlítið lengur en ráðlagt er. Þið verðið að finna það út fyrir ykkur sjálf hvað hentar ykkar húð.

Takk fyrir að lesa, xx

Share: