Vöruna fékk ég senda sem gjöf.

Rétt eftir tvítugt fór ég að hafa áhyggjur af öldrun húðarinnar og fór mikið að spá í því hvort ég væri komin með hrukkur hér og þar sem að þyrfti að “laga”. Ég hef nú töluvert róast þegar það kemur að þessu enda ekki nema 23.7 ára gömul og hef enn örlítinn tíma til að njóta þess að hafa bara áhyggjur af fílapenslum og bólum. Ástæðan fyrir því að ég myndaði mér þessar áhyggjur voru ljósabekkjanotkun og sólbaðsdýrkun sem ég stundaði af krafti eitt sumarið þegar ég var 17-18 ára. Þegar ég tók einn vetur í hjúkrun í HÍ blossaði upp áhugi minn á húðinni, umhirðu hennar og öldrunarferli. Þessi áhugi varð svo til þess að ég skipti algjörlega um svið, endaði í snyrtifræðinni og starfa við það í dag.

Öldrun húðar hefur því auðvitað setið í mér í dálítinn tíma en ég skrifaði lokaritgerðina mína í snyrtifræðinni einmitt um það efni. Ég kafaði mögulega aðeins of djúpt í efnið og las greinar í læknaritum sem og aðrar vísindagreinar og ófaglegar bloggfærslur. Við erum alltaf að komast að eitthverju nýju um mannslíkamann og einmitt vegna þess hve upptekin við erum að því að halda okkur ungum og hraustum þá fer mikill peningur og rannsóknarvinna í það. Til eru mörg þúsund krem, serum, andlitsmeðferðir og annað sem á að halda okkur stinnum, strekktum og tvítugum að eilífu en oftast er raunin sú að það virkar lítið sem ekkert, því að erfitt er að grípa inn í þegar við erum komnar með línur og hrukkur.

Til þess að koma mér að efni dagsins langar mig að ræða við ykkur um stakeindir (free radicals) og með því deila með ykkur smá bút úr lokaritgerðinni minni (mehehe) til þess að útskýra málið.

free-radical-1

Eðlileg efnaskipti líkamans framleiða stakeindir en einnig má nefna utanaðkomandi áhrif eins og sólargeisla, reykingar, mengun og mat. Því er ekki hægt að komast hjá því að stakeindir myndist og með aldrinum fara náttúrulegar varnir líkamans gegn þeim að dvína. Þá valda stakeindir verulegri röskun á efnaskiptum frumna og er ein af ástæðunum fyrir því að frumurnar eldast. Það veldur meðal annars hrukkum og stirðum liðum. Andoxunarefni draga nafn sitt af virkni þeirra en þau tengjast stakeindum og koma því í veg fyrir það að þær valdi skaða í líkamanum. Líkaminn notar efni eins og vítamín (A, C, og E), selen, sink og ensím sem eru hans náttúrulega varnarkerfi. Ávextir og grænmeti eru ríkir af andoxunarefnum og því mikilvægur partur af fæðu, sérstaklega þegar líður á árin og líkaminn þarf meira af andoxunarefnum til að halda stakeindum í skefjum.

DSC_0425

Þá kem ég loksins að vörunni sem mig langaði að segja ykkur frá, Vitamin C Serum frá Mario Badescu. Það inniheldur ascorbyl sýru (C-vítamín) sem að hefur mjög andoxandi áhrif á húðina, ásamt því að lýsa upp, jafna húðlit og örva kollagen- og elastínframleiðslu. Einnig inniheldur það hýalúron sýru og kollagen sem að eru kröftugir rakagjafar en með því að jafna rakastig húðarinnar erum við að gefa henni fyllingu. Oft myndast fínar línur á yfirborði húðarinnar bara vegna rakaþurrks hennar. Eins og ég hef sagt áður þá er serum ekki eitthver ein vara heldur vöruheiti (eins og krem/maski) þar sem að markmiðið er að gefa húðinni kröftugri virkni. Sameindastærð er mun minni í serum og er þéttni efnis oftast mun meiri, því geta þau oft verið dýrari en eru á sama tíma mun kraftmeiri. Vegna þess að sameindirnar eru minni og léttari þá smígur varan mun dýpra í húðina og hefur virkni nær lifandi húðlögum annað en kremin okkar sem vinna mest á yfirborðinu.

DSC_0418 (1)

Ég hef verið að nota Vitamin C serum frá MB í nokkar vikur núna og finn töluverðan mun á rakastigi húðarinnar en ég hef líka tekið eftir því að freknurnar mínar og örin hafa dempast og eru orðin ljósari. Með því að halda áfram að nota þessa vöru vona ég að hún aðstoði mig við að halda minni öldrun í skefjun með því að hafa andoxandi áhrif á þær stakeindir sem myndast vegna sólarljós og mengunar. Ég nota þetta serum á hreina húð undir kremið mitt  annað hvert kvöld, eftir leiðbeiningu framleiðanda. Vökvinn er olíukendur en léttur og gæti dugað þeim sem eru með olíkennda húð að nota bara serumið þau kvöld sem það er notað annar hentar varan öllum húðgerðum. Ilmurinn af því er léttur en sterkur keimur af lavander (lavander ilmkjarnaolía er eitt af innihaldsefnum). Gott er að hafa í huga að C-vítamín er rokgjarnt og erfitt að halda því stöðugu, þessvegna er krukkan lituð dökk og mæli ég með því að halda henni frá sólarljósi ásamt því að passa að hafa hana opna í eins stuttan tíma og mögulegt er til að tapa ekki virkni.

Vitamin C serum frá Mario Badescu fæst hér.

DSC_0429

Við meigum samt ekki gleyma að þrátt fyrir allar flottu húðvörurnar þá er besta leiðin til að vinna gegn oxun líkamans og öldrun hans að stunda heilbrigt líferni. C-vítamín í gegnum fæðu hefur mun meiri áhrif en c-vítamín sem við berum á húðina. Hreyfing og matarræði skipta megin máli í öllu sem viðkemur heilsu og útliti.

undirskrift

Share: